Ályktun aðalfundar Sjómannafélags Íslands haldinn 29. desember 2025
Aðalfundur Sjómannafélags Íslands harmar og lýsir yfir andstöðu við þær fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar að afnema heimildir í lögum til samsköttunar hjóna og sambýlisfólks. Um er að ræða aðgerð sem felur í sér aukna skattheimtu á sjómenn og fjölskyldur þeirra. Breyting þessi mun hafa meiri áhrif á sjómenn en aðra hópa launþega og felur þannig í sér ósanngjarna mismunun milli launþegahópa. Með þessari breytingu er ekkert tillit tekið til sérstöðu starfa sjómanna og fjölskylduaðstæðna þeirra þar sem það er sjómaðurinn í flestum tilvikum sem aflar meginhluta launatekna á heimilinu, enda hafa eiginkonur og sambýliskonur þeirra ekki sömu möguleika til öflunar launatekna sökum fjarveru sjómanna sökum vinnu sinnar. Er skorað á stjórnvöld að koma til móts við sjómenn, sem sinna einum mikilvægustu störfum í landinu við öflun skatttekna fyrir ríkissjóð, þannig að samsköttun þeirra og maka verði áfram heimil.