Lög félagsins

I. Kafli. Heiti félagsins, varnarþing og tilgangur

1. gr.

Félagið heitir Sjómannafélag Íslands, skammstafað: SÍ. kt. 570269-1359.
Félagið er aðili að Sjómannadagsráði Reykjavíkur og Hafnarfjarðar, ITF Alþjóða flutningaverkamanna sambandinu og NTF Norræna flutningaverkamanna sambandinu.
Heimili félagsins og varnarþing er að Skipholti 50d, 105 Reykjavík. Félagssvæðið er Ísland.

2. gr.

Tilgangur félagsins er:
a) Að sameina alla starfsmenn sem starfa á grundvelli þeirra kjarasamninga sem félagið gerir.
b) Að vinna að sameiginlegum hagsmunamálum félagsmanna, svo sem með því að semja um kaup og kjör, bættum aðbúnaði og gæta þess að ekki sé gengið á rétt félagsmanna.
c) Að vinna að öryggis- og fræðslumálum félagsmanna.
d) Að vinna að bættri löggjöf um málefni félagsmanna.
e) Að aðstoða félaga varðandi störf í landi að loknu sjómannsstarfi.

3. gr.

Félagið skiptist í starfsgreinar
a) Rétt til inngöngu í félagið hafa allir sem atvinnu stunda á sjó, eða starfa á hvers konar flotmannvirkjum, jafnvel þó þau standi á grunni; svo og þeir sem atvinnu hafa af hvers konar flutningastarfsemi.
b) Sérstök deild matsveina starfar innan félagsins. Megin markmið deildarinnar er: Kjósa eða velja fulltrúa í þær stöður sem snúa að opinberri stjórnsýslu og nefndarstörfum sem áður tilheyrðu Matsveinafélagi Íslands og sjá um að öll réttindi sem eru til staðar haldist og gera tillögur til stjórnar í sérmálum matsveina. Félagsmenn kjósa sér stjórn, formann, tvo meðstjórnendur og tvo varamenn. Kjörið er í deildina samtímis og með sama hætti og í stjórn félagsins.
c) Sérstök deild hafnarverkamanna starfar innan félagsins. Meginmarkmið deildarinnar er að kjósa eða velja fulltrúa í þær stöður sem snúa að opinberri stjórnsýslu, nefndarstörfum, sjá um gerð kjarasamnings fyrir hafnarverkamenn og aðra hagsmunagæslu. Stjórnarmaður deildar hafnarverkamanna á rétt til setu á stjórnarfundum með málfrelsi og tillögurétti. Félagsmenn kjósa sér stjórn, formann, tvo meðstjórnendur og tvo varamenn. Kjörið er í deildina samtímis og með sama hætti og í stjórn félagsins.

 II. Kafli. Réttindi og skyldur félagsmanna, réttindamissir, brottrekstur

4. gr.

Sá sem greiðir félagsgjald telst félagsmaður og hefur óskað eftir að vera félagi.
Félagsmenn geta einnig orðið þeir sem sinna málefnum félagsins og aðrir sem stjórnin metur hæfa hverju sinni.

5. gr.

Heimilt er að taka í félagið, sem aukafélaga, þá sem greiða til félagsins en hafa ekki óskað eftir inngöngu sbr. 4 gr. Sama á við um aðra sem stunda vinnu samkvæmt þeim samningum sem félagið gerir og starfa á starfssvæði félagsins um stundarsakir, en eru félagar í öðrum félögum.
Aukafélagar greiða fullt félagsgjald meðan þeir starfa á félagssvæðinu, hafa málfrelsi og tillögurétt á fundum félagsins, en hvorki atkvæðisrétt né kjörgengi.

6. gr.

Úrsögn úr félaginu skal vera skrifleg. Hún skal afhent á skrifstofu félagsins.
Félagsmenn halda félagsréttindum meðan þeir gegna trúnaðarstörfum í verkalýðs-hreyfingunni.
Enginn getur sagt sig úr félaginu eftir að atkvæðagreiðsla um vinnustöðvun hefur verið auglýst eða ákvörðun um vinnustöðvun hefur verið tekin af félaginu og þar til vinnustöðvuninni hefur verið formlega aflýst. Einnig er óheimilt að segja sig úr félaginu til þess að taka upp störf félagsmanna í öðru félagi sem lagt hafa niður vinnu vegna deilu.

7. gr.

Réttindi félagsmanna eru eftirfarandi:
a) Tillögu- og atkvæðisréttur á félagsfundum svo og kjörgengi. Atkvæðisréttur um kjarasamninga fer eftir starfsgreinum.
b) Réttur á styrkjum úr sjóðum félagsins og öðrum úthlutunum, að uppfylltum þeim skilyrðum sem sett eru í reglugerðum sjóðanna.
c) Réttur til að vinna samkvæmt þeim kjörum sem samningar félagsins kveða á um hverju sinni.
d) Réttur til aðstoðar frá félaginu vegna vanefnda atvinnurekenda á samningum.

8. gr.

Skyldur félagsmanna eru:
a) Að hlíta lögum félagsins, fundarsköpum, fundarsamþykktum og kjarasamn-ingum í öllum greinum.
b) Að greiða félagsgjöld.
c) Að stuðla að því að ófélagsbundnir menn gangi félagið.
d) Að tilkynna til félagsins brot á lögum og samþykktum þess.

9. gr.

a) Félagsgjöld eru ákveðin á aðalfundi.
b)Félagsgjöld skulu vera 1% af launum. Félagsgjöld þeirra fiskimanna sem greitt er gjald af úr greiðslumiðlunarsjóði skulu vera 0,75% af launum, en þó er heimilt að ákveða lágmarksgjald. Mun breytingin taka gildi 1. júní 2014. Gerður er fyrirvari á breytingunni um að greiðslur úr greiðslumiðlun sjávarútvegsins skili sér til félagsins.
c)Félagar sem ekki starfa eftir samningum félagsins, en óska eftir því að vera áfram í félaginu, skulu greiða lágmarksgjald sem ákveðið er á aðalfundi.
d)Hver sá félagsmaður sem skuldar lögboðin gjöld til félagsins fyrir 6 mánuði eða meira nýtur ekki fullra félagsréttinda, svo sem atkvæðisréttar, kjörgengis né styrkja úr sjóðum félagsins. Félagsréttindi öðlast hann ekki á ný fyrr en skuldin er að fullu greidd. Tveggja ára skuld varðar útstrikun af félagaskrá. Sanni félagsmaður að hann hafi verið óvinnufær sökum sjúkdóms eða slysa í 6 mánuði eða lengur, þarf hann ekki að greiða félagsgjald. Stjórn félagsins getur heimilað að þeir sem sjúkir eru eða stundað hafa nám og fallið þess vegna út af launaskrá, fái eftirgjöf á félagsgjaldi.
e)Heiðursfélagar greiða ekki félagsgjald, en njóta sömu réttinda og fullgildir félagar.

10. gr.

a) Ef félagsmaður er sakaður um brot á lögum félagsins skal málið tekið fyrir á stjórnarfundi sem ákveður með einföldum meirihluta atkvæða hvort veita skuli áminningu eða víkja félagsmanni úr félaginu. Skjóta má þeim úrskurði til trúnaðarmannaráðsfundar.
b) Hver sá maður er brottrækur úr félaginu, í lengri eða skemmri tíma, sem að áliti trúnaðarmannaráðsfundar hefur unnið gegn hagsmunum félagsins, valdið því tjóni eða gert því eitthvað til vansa. Þetta á einnig við um þá sem ekki hlíta lögum þess eftir gefna áminningu.
c) Hafi félagsmanni verið vikið úr félaginu á hann ekki afturkvæmt í félagið nema inntökubeiðni hans sé samþykkt á lögmætum trúnaðarmannaráðsfundi.

III. Kafli. Stjórn og trúnaðarmannaráð

11. gr.

Stjórn félagsins skal skipuð 7 mönnum, formanni, varaformanni, ritara, féhirði, varaféhirði, tveimur meðstjórnendum og þremur varamönnum. Varamenn taka sæti í stjórn í þeirri röð sem þeir eru kosnir. Minnst 4 menn úr aðalstjórn, þar á meðal formaður og aðalféhirðir, skulu valdir með það markmið að þeir séu í landi allt árið.

12. gr.

Stjórnin hefur á hendi yfirstjórn félagsins milli aðalfunda.  Henni ber að fylgja félagslögum og fundarsamþykktum í starfi sínu.  Stjórnin boðar til félagsfunda samkv. 19. grein.

Stjórnin kýs fulltrúa félagsins í Sjómannadagsráð í samræmi við lög þess.

Stjórnin gerir tillögu um stjórn Styrktar- og sjúkrasjóðs til aðalfundar SÍ.

Stjórn félagsins fer með stjórn Orlofssjóðs SÍ.

Stjórnin tilnefnir þrjá félaga í uppstillingarnefnd. Nefndin gerir tillögur til trúnaðarmannaráðs um frambjóðendur í stjórn, stjórn matsveinadeildar, stjórn deildar hafnarverkamanna  og  trúnaðarmannaráð.

13. gr.

Formaður félagsins boðar til stjórnarfunda og sér um fundarstjórn. Formanni er skylt að halda stjórnarfund óski a.m.k. 2 stjórnarmenn eftir því. Formaður undirritar fundargerðabækur félagsins og gætir þess að allir stjórnarmenn gegni skyldum sínum. Hann hefur eftirlit með starfssemi félagsins og gæti þess að lögum og samþykktum félagsins sé fylgt í öllum greinum. Stjórn félagsins er skylt að stuðla að því að allt er varðar sögu félagsins sé sem best varðveitt.

Láti félagsmaður eða starfsmaður af trúnaðarstörfum er honum skylt að skila af sér öllum gögnum sem varða trúnaðarstarf hans.

14. gr.

Ritari ber ábyrgð á því að fundargerðabækur félagsins séu haldnar og fært sé í þær allar fundargerðir, reglugerðir og lagabreytingar.
Hann undirritar fundargerðabækur félagsins ásamt formanni.

15. gr.

Féhirðir hefur á hendi eftirlit með fjárreiðum félagsins og bókfærslu samkvæmt ákvörðun stjórnarinnar.

16. gr.

Trúnaðarmannaráð skal vera starfandi í félaginu. Í ráðinu eiga sæti stjórn félagsins, varastjórn og stjórn matsveinadeildar. Auk þess skulu kosnir 9 félagsmenn og allt að 24 varamenn.  Skal þess gætt að allar starfsgreinar félagsins hafi þar fulltrúa. Trúnaðarmannaráð er kosið fjórða hvert ár samkvæmt 20 gr. Formaður félagsins skal vera formaður trúnaðarmannaráðs og ritari félagsins ritari þess. Formaður boðar trúnaðarmannaráð til funda þegar þörf krefur, þó eigi sjaldnar en tvisvar á ári. Formanni er skylt að boða trúnaðarmannaráð til fundar ef þriðjungur þess óskar, enda tilgreina þeir fundarefni. Trúnaðarmannaráðsfundur skal boðaður bréflega eða með rafrænum hætti. Fundur telst löglegur ef fundarboð hefur borist félögum sólarhring fyrir boðaðan fundartíma.

Hlutverk trúnaðarmannaráðs er m.a.

  1. Að móta stefnu félagsins í mikilvægum málum.
  2. Að bera fram tillögu um atkvæðagreiðslu vegna verkfallsboðunar.
  3. Að gera tillögu um þá menn sem í kjöri verða sem stjórnendur félagsins, fjögur ár í senn. Þeir félagsmenn sem vilja leggja fram annan framboðslista við stjórnarkjör þurfa að auki meðmælalista, undirritaðan af minnst 100 félögum, og skal meðmælalistinn afhentur kjörstjórn um leið og framboðslistinn er afhentur. Trúnaðarmannaráð auglýsir eftir framboðslistum eigi síðar enn 5. nóvember. Skulu  listar berast til kjörstjórnar fyrir kl. 12 þann 19. nóvember. Beri dagsetning upp á helgi færist hún yfir á fyrsta virka daginn á eftir og gildir sama regla við um aðra framboðsfresti og kosningar samkvæmt þessum lögum. Ef aðeins einn framboðslisti hefur borist til stjórnar, trúnaðarmannaráðs og matsveinadeildar eru þeir menn sem þar eru tilnefndir sjálfkjörnir stjórn. Berist tveir eða fleiri framboðslistar skulu þeir merktir bókstöfunum A, B, C o.s.frv. Ekki er hægt að leggja fram framboðslista fyrr en eftir kl. 12.00 5. nóvember. Félagsmaður getur aðeins verið í framboði á einum framboðslista.
  4. Að leggja fram tillögur til aðalfundar um menn í styrkveitingarnefnd, félagslega skoðunarmenn reikninga og kjörstjórn.

17. gr.

Samninganefndir skulu starfa í félaginu. Hlutverk þeirra er að annast kjarasamninga¬gerð fyrir hönd félagsins. Nefndirnar skulu kjörnar af trúnaðarmannaráði. Formaður félagsins skal vera formaður nefndanna nema annað sé ákveðið.
Sérstök samninganefnd er kjörin fyrir hverja starfsgrein.

18. gr.

Kjörstjórn skal vera starfandi í félaginu. Hlutverk hennar er að annast stjórn atkvæðagreiðslna um kjarasamninga, verkföll og allsherjar atkvæðagreiðslur skv. lögum félagsins. Kjörstjórnin skal kjörin á aðalfundi og í henni skulu eiga sæti tveir menn og tveir til vara. Við stjórn á atkvæðagreiðslu um kjarasamninga og verkföll skipar trúnaðarmannaráð þriðja stjórnarmanninn og skal hann vera formaður kjörstjórnar. Við stjórn á allsherjar atkvæðagreiðslu eru önnur atriði skv. lögum félagsins.

IV. Kafli. Fundir og stjórnarkjör

19. gr.

Félagsfundur skal haldinn þegar stjórnin álítur tilefni til eða ef að minnsta kosti 100 félagsmenn óska þess skriflega enda sé um leið gerð grein fyrir verkefni slíks fundar. Félagsfundur er lögmætur ef löglega er til hans boðað. Til fundar skal boða með tveggja sólarhringa fyrirvara. Ef félagsfundur er haldinn undir sérstökum kringumstæðum og tveir sólarhringar ekki liðnir frá því að fundur var boðaður ber í upphafi fundar að leita samþykkis fundarmanna um að fundurinn skuli teljast lögmætur. Félagsfundur getur ekki ákvarðað fjárhagsskuldbindingar.

20. gr.

Kosning til stjórnar og trúnaðarmannaráðs.
Kosning stjórnar.
Trúnaðarmannaráð skipar þrjá menn í kjörstjórn sem stjórna kosningunni. Kosning hefst kl. 13.00 24. nóvember en lýkur þó ekki fyrr en 10. janúar næstkomandi ár. Kosning fer fram á skrifstofu félagsins á þeim tíma sem hún er auglýst opin. Kjörstjórn er heimilt að lengja þann tíma, ef ástæða er til. Að öðru leyti setur félagsstjórn kjörstjórninni starfsreglur.

21. gr.

Stjórn félagsins gerir kjörskrá yfir félagsmenn.
Þeir einir hafa kosningarétt, sem skráðir eru í félagið þegar kosning hefst.
Merkja skal við hvern þann í kjörskránni sem skilað hefur atkvæði.

22. gr.

Kosning fer fram á skrifstofu félagsins. Kjósandinn tilkynnir kjörstjórn að hann vilji kjósa. Sé hann á kjörskrá er honum afhentur kjörseðill og skal hann getað kosið í einrúmi. Setja skal kross fyrir framan bókstaf þess framboðslista er hann kýs.
Atkvæði skal meta ógilt:
a) Ef merkt er við fleiri en einn bókstaf.
b) Ef ekki verður séð við hvaða lista er merkt.

23. gr.

Kjósandinn lætur kjörseðil í lokaðan atkvæðakassa sem er á skrifstofu félagsins. Aðsend atkvæði skal kjörstjórn bera saman við kjörskrá, jafnskjótt og þau berast og láta síðan í kjörkassann. Formaður kjörstjórnar eða fulltrúi hans sér um að kjörkassinn sé innsiglaður áður en kosning hefst og gengur úr skugga um að hann sé tómur. Sá hinn sami geymir lykilinn að kjörkassanum.
Talning atkvæða fer fram að kosningu lokinni og skulu þá atkvæðatölur birtar.
Formaður kjörstjórnar eða fulltrúi tilnefndur af honum, er skal vera viðstaddur atkvæðatalninguna og úrskurðar viðkomandi um lögmæti kosningarinnar. Skulu fulltrúar framboðslista einnig vera viðstaddir.
Kjörnir eru þeir sem voru á framboðslista sem hlaut flest atkvæði.
Fái tveir framboðslistar eða fleiri jafnmörg atkvæði, skal varpa hlutkesti, sem svo ræður úrslitum, skulu fulltrúar framboðslista vera viðstaddir.
Úrslit stjórnarkosningar skulu kynnt á næsta aðalfundi, þar sem kjörin stjórn tekur við.

24. gr.

Aðalfundur skal haldinn fyrir lok desember.
Aðalfundur félagsins og dagskrá hans skal auglýst með sjö sólarhringa fyrirvara, samkvæmt 19. gr. félagslaga.
Reikningar félagsins, sérsjóða og lagabreytingar skulu liggja frammi á sama tíma á skrifstofu félagsins.
Tillögur og ályktanir frá öðrum en stjórn eða trúnaðarmannaráði sem leggja á fyrir aðalfund skuli hafa borist skriflega til stjórnar sjö sólarhringum fyrir aðalfund.
Á aðalfundi skulu tekin fyrir eftirfarandi mál:
a) Skýrsla stjórnar fyrir liðið starfsár.
b) Endurskoðaðir reikningar félagsins og sérsjóða skulu lagðir fram til afgreiðslu.
c) Kosningu stjórnar lýst.
d) Kosning tveggja félagslegra skoðunarmanna reikninga og eins til vara.
e) Kosning til annarra stjórna og ráða, sem lög og reglugerðir félagsins gera ráð fyrir.
f) Lagabreytingar, ef fyrir liggja.
g) Ákvörðun félagsgjalda.
h) Tillögur og ályktanir.
i) Önnur mál.
j) Aukaaðalfundur er haldinn ef stjórn félagsins telur það nauðsynlegt, allar sömu reglur gilda um boðun og framkvæmd aukaaðalfundar og aðalfundar.

V. Kafli. Fjármál

25. gr.

Stjórn félagsins ræður löggiltan endurskoðanda sem skal vera sá sami fyrir alla starfssemi félagsins.
Skulu reikningar félagsins lagðir fyrir aðalfund uppáskrifaðir af löggiltum endurskoðanda, stjórn SÍ og félagslegum skoðunarmönnum reikninga.
Hlutverk skoðunarmanna er að yfirfara reikninga félagsins fyrir síðast liðið reikningsár og hafa eftirlit með því að fjármunum þess sé varið til þeirra verkefna sem hafa verið ákveðin.
Reikningsár SÍ er almanaksárið.

26. gr.

Sjóðir í eigu eða vörslu félagsins:
Félagssjóður, styrktar- og sjúkrasjóður, 11. maí sjóður, orlofssjóður, svo og aðrir sjóðir sem stofnaðir kunna að verða. Allir sjóðir félagsins aðrir en félagssjóður skulu hafa sérstaka reglugerð sem samþykkja þarf á aðalfundi. Reglugerðum sjóða má aðeins breyta á aðalfundi. Í reglugerð hvers sjóðs skal tilgreina hlutverk sjóðsins, hvernig verja skuli fé hans, og hvernig honum skuli stjórnað.
Sjóðir félagsins skulu ávaxtaðir á tryggan hátt.

VI. Kafli. Lagabreytingar

27. gr.

Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi félagsins enda hafi lagabreytinga verið getið í fundarboði. Tillögur um lagabreytingar, er koma frá öðrum en stjórn eða trúnaðarmannaráði, verða að hafa borist skriflega til formanns félagsins minnst 15 dögum fyrir aðalfund.

VII. Kafli. Félagsslit

28. gr.

Félaginu verður ekki slitið nema 3/4 allra félagsmanna samþykki það að viðhafðri allsherjar atkvæðagreiðslu. Auðir og ógildir seðlar teljast ekki greidd atkvæði. Verði samþykkt að leggja félagið niður, skal eignum félagsins ráðstafað til Dvalarheimilis aldraðra sjómanna DAS.
Um sameiningu félaga skal fjallað á sama hátt og lagabreytingar.

Þannig samþykkt á aðalfundi Sjómannafélags Íslands 28. desember 2017
Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu