Saga Sjómannafélags Íslands
23. október 1915 var Hásetafélag Reykjavíkur stofnað í Bárubúð við Tjörnina en í ársbyrjun 1920 var nafni félagsins breytt í Sjómannafélag Reykjavíkur. Það voru nýir tímar á Íslandi. Þjóðin hafði fengið heimastjórn 1904, Hannes Hafstein orðið ráðherra. Hótel Ísland hafði risið við birtingu nýrrar aldar á mótum Aðalstrætis og Austurstrætis. Fyrsti „olíuhreyfillinn“ hafði verið settur í bát árið 1902 og togarinn Jón forseti, sem átti heimahöfn í Reykjavík, hafði komið til landsins árið 1907. Með komu togarans varð breyting á Reykjavík, hornsteinn var lagður að gengi hennar sem „trollarabæjar“. Unnið var hörðum höndum að Reykjavíkurhöfn, mestu framkvæmd Íslandssögunnar fram að þeim tíma. Sæstrengur hafði verið lagður frá Evrópu til Seyðisfjarðar, einangrun þjóðarinnar hafði verið rofin.
Hið unga verkalýðsfélag háseta þurfti að berjast fyrir tilveru sinni. Strax árið 1916 háði félagið sinn fyrsta slag við útgerðarmenn – slaginn um lifrina. Árið 1923 vannst einn merkasti sigur íslenskrar verkalýðsbaráttu í Blöndals-slagnum svonefnda sem varð til þess að hið unga Sjómannafélag gekk í ITF, Alþjóðaflutningaverkamannsambandið.
Vökulögin voru samþykkt á lokadaginn að frumkvæði Jóns Baldvinssonar, 11. maí 1921 þar sem „hver háseti hafi að minnsta kosti 6 klukkustunda óslitna hvíld í sólarhring hverjum.“ Nokkrum árum síðar var hvíldartíminn lengdur í átta stundir. Lögin mörkuðu þáttaskil í harðri baráttu sjómanna gegn vinnuþrælkun og eru einn stærsti sigur íslenskrar verkalýðshreyfingar á Alþingi. Árið 1926 kom til fyrsta farmannaverkfalls Sjómannafélags Reykjavíkur. Sjómannadagurinn var haldinn hátíðlegur í fyrsta sinn í Reykjavík vorið 1938. Þúsundir komu saman í snörpum norðangarra undir styttu Leifs Eiríkssonar á Skólavörðuholti. Stéttarfélög sjómanna gengu fylktu liði upp Skólavörðuholtið í „virðulegustu skrúðgöngu sem hjer hefir sjest“.
Þjóðin stofnaði lýðveldi 1944 og vann yfirráð yfir landhelginni í hörðum þorskastríðum, fullnaðarsigur 1976. Trúnaðarmannaráð Sjómannafélags Reykjavíkur var stofnað 1951. Á Sjómannadaginn árið 1957 var Hrafnista vígð, Dvalarheimili aldraðra sjómanna á Laugarásnum.
Við aldarlok – á sjómannadaginn 1999 – voru minningaröldur um drukknaða sjómenn vígðar í Fossvogskirkjugarði. Á 20. öld fórust rétt um 3.600 íslenskir sjómenn á sjó.
Vorið 2001 kom til lengsta sjómannaverkfalls sögunnar, sjö vikna deilu helstu samtaka sjómanna. Ríkið greip inn í deiluna með lagasetningu eins og svo oft. Sjómenn mótmæltu við Alþingi, mættu vígalegir í gulum sjóstökkum.
Sjómenn hafa jafnan þurft að berjast gegn ofríki ríkisvaldsins sem árið 2010 hóf vegferð sína að afnema sjómannaafslátt sem var sleginn af að fullu fjórum árum síðar. Síðari ár hefur baráttan gegn skipum undir hentifána sett svip sinn á baráttu Sjómannafélagsins sem árið 2007 varð Sjómannafélag Íslands og þar með landsfélag.