Kröfur fiskimanna

Sjómannaafsláttur:
- Útgerðin greiði mánaðarlega laun sem bæta upp skerðingu sjómannaafsláttar skv. skattalögum.
Verðmyndun á fiski:
- Allur afli, sem landað er ferskum eða seldur er til vinnslu innanlands, verði seldur á uppboðsmörkuðum innanlands eða erlendis eða verð verði tengt við fiskmarkaðsverð eða afurðarverð, þar sem fiskmarkaðsverð er ekki tiltækt, þegar um bein viðskipti skyldra aðila er að ræða. (Gildir ekki um bein viðskipti við eigin vinnslu erlendis. Í þeim tilvikum skal aflinn seldur á fiskmarkaði eða verð taki mið af fiskmarkaðsverði í því landi sem vinnslan er).
Hlutaskiptin:
- Olíuverðsviðmiðun endurskoðuð/afnumin.
- Heildarverðmæti VS-afla komi til skipta sbr. kjarasamning.
- Skýr ákvæði komi inn í kjarasamninginn um að sjómenn sæti ekki launaskerðingu vegna landhelgisbrota skipstjóra/útgerðar.
Skiptimannakerfi og slysa- og veikindaréttur:
- Settar verði skýrar reglur um kaupgreiðslur, veikindarétt o.þ.h. þegar skipverjar eru ráðnir í skiptimannakerfi (jafnaðarhlutur eða greitt fyrir hverja veiðiferð).
Fræðslumál:
- Framlag komi frá útgerð í starfsmenntasjóð.
- Útgerðir tryggi að sjómenn geti stundað fjarnám úti á sjó.
Kauptrygging, kaupliðir og orlof:
- Kauptrygging og kaupliðir hækki verulega.
- Orlofsprósentur verði lagfærðar og orlof miðist við starfsaldur á sjó.
- Upphæð fæðispeninga endurskoðuð örar en nú er gert.
- Laun aðstoðarmanns í eldhúsi hækki verulega.
Aflahlutir/aukahlutir:
- Vaktformaður á línuskipum fái aukahlut.
- Aukahlutur umsjónarmanns fiskvinnsluvéla hækki.
- Netamenn með ¼ aukahlut verði á humarbátum yfir ákveðinni stærð.
Hafnarfrí og löndunarfrí:
- Tryggð verði ein fríhelgi í mánuði á bátum sem stunda togveiðar.
- Á öllum veiðum skal skipverjum tryggt frí í heimahöfn frá og með 20. desember til 2. janúar.
- Rætt verði um hafnarfrí almennt.
- Frí verði við löndun á öllum veiðum.
Önnur atriði:
- Settar verði skorður við of mikilli fækkun í áhöfn, þ.e. frádráttur frá skiptaprósentu hætti þegar ákveðin fækkun hefur átt sér stað.
- Ákvæði 5. kafla kjarasamningsins, um báta og togara undir 42 metrum, verði lagfærð.
- Stærðarviðmiðun í kjarasamningi verði breytt úr brúttórúmlestaviðmiði í lengd í metrum (skráningarlengd).
- Ný skip, sjö ára ákvæðið. Þrengja þarf eða afnema nýsmíðaákvæði kjarasamningsins.
- Skipverjar fái greitt kaup þann tíma sem tekur að ferðast til skips þegar það er utan heimahafnar.
Áskilinn er réttur til, ef þurfa þykir, að taka til umræðu og skoðunar önnur mál en fram koma hér að framan vegna endurnýjunar á kjarasamningi milli SSÍ og LÍÚ.

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu