Úrskurður kjörstjórnar

Fimmtudaginn 13. júní 2019, klukkan 18.00, kom kjörstjórn Sjómannafélags Íslands (SÍ) saman á ný, á skrifstofu félagsins Skipholti 50d, Reykjavík. Mættir voru Jónas Þór Jónasson hrl., formaður, Guðmundur Hallvarðsson og Benóný Harðarson.

Var fram haldið fundi kjörstjórnar sem frestað hafði verið. Í fundargerð kjörstjórnar 5. júní sl., sem send var fyrirsvarsmönnum B-lista sama dag, var bent á tiltekna annmarka á mótframboðinu varðandi það hvernig trúnaðarmannaráð skuli skipað samkvæmt 16. gr. laga félagsins. Var skorað á listann að bæta úr þeim annmörkum og gefinn til þess frestur til hádegis mánudaginn 10. júní. Fyrirsvarsmenn listans lýstu því fljótlega yfir að þau hygðust ekki bæta úr umræddum annmörkum og sendu kjörstjórn greinargerð sína og röksemdir því til stuðnings þeim væri það óskylt. Þann 9. júní óskuðu fyrirsvarsmenn B-lista eftir fundi við kjörstjórn og var fallist á þá beiðni og fór fundurinn fram 11. júní, þar sem sjónarmið og röksemdir B-lista voru áréttuð. Kjörstjórn hafði áður óskað eftir gögnum varðandi einn frambjóðanda B-lista og áréttaði þá beiðni á fundinum.

Umbeðin gögn bárust loks með erindi B-lista í tölvubréfi að kvöldi sama dags. Í tölvubréfinu kom einnig fram að B-listi legði til breytingar á lista trúnaðarmannaráðs, þannig bætt yrði við tveimur „nýjum nöfnum“ sem ekki væru þar fyrir, án þess að umræddir aðilar væru nafngreindir. Væri það lagt í hendur kjörstjórnar að bæta þessum einstaklingum við núverandi lista eða skipta þeim út fyrir aðra sem þar eru, án þess að tilgreint væri hverjir það ættu að vera. Kom fram að báðir þessara aðila hafi óskað nafnleyndar að svo stöddu.

Þá var það áréttað enn á ný við kjörstjórn, að B-listinn hygðist ekki leggja fram nýjan lista meðmælanda, með nýjum og breyttum framboðslista, jafnvel þó svo að veittur yrði lengri frestur til slíks, og væri ástæðan sú að talið væri að listinn „uppfyllti lög SÍ“. Í erindi B-listans var einnig vísað til þess að óljóst væri samkvæmt lögum SÍ hverjar starfsgreinar væru samkvæmt 16. gr. laganna. Kjörstjórn bendir á í því sambandi að hafi B-lista í raun verið þetta óljóst hafi það komið fram með skýrum hætti í framangreindri fundargerð kjörstjórnar 5. júní. Var loks áréttaður sá skilningur B-lista að með starfsgreinum samkvæmt 16. gr. laga SÍ væri átt við annars vegar skiptihlutasjómenn en hins vegar tímakaupssjómenn.

Kjörstjórn hefur yfirfarið röksemdir og sjónarmið B-lista, sem bárust nefndinni eftir 5. júní, þegar listanum var gefinn frestur til að lagfæra þar tilgreinda annmarka á framboðinu. Auk þess hefur kjörstjórn fundað með fyrirsvarsmönnum B-lista þar sem komið hefur verið á framfæri framangreindum athugasemdum og skýringum. Kjörstjórn hefur ítrekað áréttað að B-listi fengi nægt svigrúm til að bæta úr áðurgreindum annmörkum á listanum, til að hann samræmdist 16. gr. laga félagsins. Var það niðurstaða B-lista að bjóða kjörstjórn að breyta eða bæta við tveimur nöfnum á lista trúnaðarmannaráðs, en B-listi hefur verið ófáanlegur til þess að afla nýrra meðmælenda, vegna mögulegra breytinga sem gerðar yrðu á listanum, sbr. framangreint.

Samkvæmt 16. gr. laga félagsins skal í félaginu vera starfandi trúnaðarmannaráð og skulu þar eiga sæti stjórn félagsins, varastjórn og stjórn matsveinadeildar. Auk þess skulu kosnir 9 félagsmenn og allt að 24 varamenn. Segir í ákvæðinu að þess skuli gætt að í trúnaðarmannaráði félagsins hafi allar starfsgreinar félagsins þar fulltrúa. Kjörstjórn hefur gengið úr skugga um það að í þessu orðalagi felist skilyrðislaus skylda til þess að ráðið sé skipað fulltrúum úr öllum starfsgreinum, þetta sé ekki valkvætt eða eitthvað sem aðeins skuli stefnt að.

Framangreint ákvæði um skipan trúnaðarmannaráðs var samþykkt á aðalfundi félagsins 2009 og að sögn þeirra sem stóðu að umræddri lagabreytingu, sem kynnt var og samþykkt á aðalfundi félagsins, var tilgangur lagabreytingarinnar að tryggja að allir félagsmenn ættu fulltrúa í trúnaðarmannaráði félagsins, sama á hvaða tegund skips þeir störfuðu. Fyrir liggur að félagsmenn SÍ starfa á margvíslegum tegundum skipa, en félagið hefur gert kjarasamninga fyrir fiskimenn, farmenn (samningar við Eimskip og Samskip), skipverja hjá Landhelgisgæslunni, Hafrannsóknarstofnun og ferjum (Herjólfur, Baldur o.fl.), en auk þess eru félagsmenn sem starfa á skipum þar sem ekki hefur verið gerður kjarasamningur, eins og á olíuskipum og hvalaskoðunarbátum. A-listi stjórnar og trúnaðarmannaráðs uppfyllir skilyrði 16. gr. um laga félagsins um að vera skipaður fulltrúum úr öllum starfsgreinum í félaginu. Við skoðun á B-lista sést að langflestir á lista til trúnaðarmannaráðs eru skipverjar á fiskiskipum, eða alls 20 af 22 sem til framboðs eru fyrir hönd B-lista. Einn skipverji vinnur samkvæmt kjarasamningi félagsins við Landhelgisgæsluna og einn starfar á olíuskipi en ekki liggur fyrir kjarasamningur vegna þeirra starfa.

Fram hefur komið sú skoðun B-lista að með „starfsgreinum“ í skilningi 16. gr. laga félagsins væri átt við skiptihlutasjómenn, fiskimenn, og tímakaupssjómenn, aðrir en fiskimenn. Þessi rök eru að mati kjörstjórnar augljóslega haldslaus. Það getur aldrei verið svo að starfsgreinar félagsins séu skilgreindar eftir því, hvort menn starfi á hlut eða föstu kaupi. Skilgreiningin á starfsgreinum getur eðlilega ekki farið eftir því með hvaða hætti menn fá launað fyrir starfið, heldur í hverju starfið er fólgið. Benda má á í þessu sambandi að fiskimenn fá samkvæmt kjarasamningi greitt fast lágmarkskaup, kauptryggingu, ef ekki fiskast fyrir aflahlut. Ef skilningur B-lista á starfsgreinum yrði lagður til grundvallar myndu fiskimenn þá hvorutveggja flokkast sem tímakaups- og skiptahluta sjómenn, og þannig tilheyra báðum þeim starfsgreinum sem B-listi telur að sé í félaginu.

Á B-lista til trúnaðarmannaráðs eru engir félagsmenn sem starfa á farskipum, samkvæmt kjarasamningum félagsins við Eimskip og Samskip, en félagsmenn á farskipum eru tæplega 20% félagsmanna. Þá eru á B-lista til trúnaðarmannaráðs engir félagsmenn sem starfa samkvæmt kjarasamningum félagsins við Hafrannsóknarstofnun eða samkvæmt kjarasamningi félagsins vegna skipverja á farþegaferjum. Horfa verður til þess að þess hefur ávallt verið gætt hjá félaginu, að trúnaðarmannaráð sé skipað félagsmönnum úr öllum starfsgreinum. Með þeirri breytingu sem gerð var samkvæmt framangreindu á 16. gr. laga félagsins var tilgangurinn að árétta þetta markmið sérstaklega og festa í sessi í lögum þess. Trúnaðarmannaráð gegnir mikilvægu og stóru hlutverki í félaginu, en samkvæmt 16. gr. er það m.a. að móta stefnu félagsins í mikilvægum málum, bera fram tillögu um atkvæðagreiðslu vegna verkfallsboðunar, gera tillögu um þá menn sem í kjöri verða sem stjórnendur félagsins og skipar í kjörstjórn félagsins.

Í störfum sínum vinnur kjörstjórn eftir lögum félagsins. Við úrlausn þess máls sem hér er til umfjöllunar er horft sérstaklega til lögbundins tilgangs og hlutverks félagsins og trúnaðarmannaráðs. Með vísan til alls framangreinds er kjörstjórn ómögulegt annað en að leggja það til grundvallar, að til þess að um lögmætan lista til framboðs vegna kosninga í félaginu sé að ræða, að þá sé listi til trúnaðarmannaráðs skipaður fulltrúum úr öllum geirum og hópum félagsmanna, en ekki einungis einum eða fáum, enda samræmist slík skipan hvorki framangreindum áskilnaði 16. gr. né hlutverki og tilgangi félagsins sem samkvæmt 2. gr. laga þess er m.a. „að sameina alla starfsmenn sem starfa á grundvelli þeirra kjarasamninga sem félagið gerir” og “að vinna að sameiginlegum hagsmunamálum félagsmanna, svo sem með því að semja um kaup og kjör, bættum aðbúnaði og gæta þess að ekki sé gengið á rétt félagsmanna”. Að virtu því sem að framan segir og að teknu tilliti til hlutverks trúnaðarmannaráðs má augljóst vera mikilvægi þess, að innan raða ráðsins séu félagsmenn úr öllum geirum sjómanna, sem hafa þekkingu og reynslu á kjarasamningum og réttindamálum hverrar starfsgreinar fyrir sig. Samsetning B-lista til trúnaðarmannaráðs er hins vegar með þeim hætti að þetta er engan veginn tryggt, jafnvel þó svo enginn efist um vilja allra sem þar eru til að vinna að hagsmunum sjómanna almennt.

Þrátt fyrir að B-lista hafi ítrekað verið gefinn tími og svigrúm til að haga uppröðun á listann til samræmis við lög félagsins og athugasemdir kjörstjórnar, hefur það ekki verið gert. Kjörstjórn bendir sérstaklega á að það er hvorki hlutverk hennar né á hennar verksviði að breyta og/eða bæta ónafngreindum félagsmönnum inná framboðslista til kosninga í félaginu og/eða taka ótilgreinda frambjóðendur af lista, líkt og B-listi lagði til að kjörstjórn gerði. Þá hefur B-listi engin rök fært fyrir því hvers vegna ekki megi afla nýrra og eftir atvikum sömu meðmælenda, með nýjum og breyttum lista, þegar tekið hefði verið tillit til athugasemda kjörstjórnar um skipan á hann, þrátt fyrir að hafa verið boðinn bæði tími og svigrúm til slíks. Þar sem B-listi er að mati kjörstjórnar samkvæmt framansögðu ekki til samræmis við afdráttarlaus fyrirmæli 16. gr. laga félagsins um skipan í trúnaðarmannaráð félagsins og hefur ekki viljað bæta úr annmörkum sem á listanum eru, hefur kjörstjórn enga aðra úrkosti en að líta svo á að um ólögmætt framboð sé að ræða.

Af framangreindu leiðir, að aðeins einn lögmætur listi, A-listi stjórnar félagsins, hefur borist til stjórnar, trúnaðarmannaráðs og matsveinadeildar, sbr. c-liður 5. mgr. 16. gr. laga félagsins, og úrskurðar kjörstjórn því að þeir félagsmenn sem þar eru tilnefndir teljast vera sjálfkjörnir í stjórn félagsins, stjórn matsveinadeildar og trúnaðarmannaráð, til samræmis við önnur ákvæði laga félagsins.

Fleira ekki gert, fundi slitið
f.h. kjörstjórnar,

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu