Verkfall á skipum Samskipa
Sjómannafélag Íslands hefur boðað verkfall um borð í skipum Samskipa frá 1. maí næstkomandi kl. 16. Yfir 90% félagsmanna Sjómannafélagsins hjá Samskipum tóku þátt í atkvæðagreiðslu um verkfall og samþykktu einróma. Samningar Sjómannafélagsins við Samskip hafa verið lausir frá 2011. Það er álit samninganefndar Sjómannafélagsins að þar sem fulltrúar Samskipa hafi virst umboðslausir til samningagerðar hafi félagið ítrekað óskað eftir því að eigandi Samskipa, Ólafur Ólafsson, mæti til samningafunda en því hafi jafnan verið neitað.