Yfirlýsing og ákvörðun stjórnar og trúnaðarmannaráðs SÍ
Með dómi Félagsdóms í málinu nr. 12/2018 komst dómurinn að þeirri niðurstöðu að óheimilt væri að gera það að skilyrði kjörgengis í félaginu að greidd hafi verið félagsgjöld til félagsins í a.m.k. þrjú ár.Í kjölfarið var skorað á félagið að boða á ný til kosninga til stjórnar, trúnaðarmannaráðs og stjórnar matsveinadeildar félagsins, en kosningar fóru fram í nóvember síðastliðinn.Að mati stjórnar, trúnaðarmannaráðs og lögmanna félagsins, er einsýnt að stefnandi í framangreindu félagsdómsmáli var ekki dæmd inn í félagið á ný með dómi Félagsdóms. Hún hefur hafnað boði um að ganga í félagið á ný.
Þrátt fyrir að stjórn og trúnaðarmannaráð félagsins telji að úrskurður kjörstjórnar frá 20. nóvember síðastliðinn, um ólögmæti mótframboðs B-lista, standi óhaggaður, vegna annmarka sem á framboðinu voru, hefur stjórn og trúnaðarmannaráð félagsins ákveðið að fram fari á ný kosningar í félaginu, til að hafið sé yfir vafa að frambjóðendur á listum stjórnar félagsins sitji í óumdeildu umboði félagsmanna. Verður því boðað á ný til kosninga í stjórn, trúnaðarmannaráði og stjórn matsveinadeildar, til samræmis við lög félagsins og ákvörðun stjórnar og trúnaðarmannaráðs. Verður kosningin og framkvæmd hennar auglýst í fjölmiðlum og á heimasíðu félagsins við fyrsta tækifæri til samræmis við lög félagsins.