Vegna nýsamþykkts kjarasamnings Sjómannasambands Íslands og SFS.

Vegna fjölda símhringinga og tölvupósta frá félagsmönnum og öðrum sjómönnum um kjarasamning milli Sjómannsambands Íslands (SSÍ) og SFS sem skrifað var undir í vikunni og fer í kosningu á næstu dögum, vill stjórn og samninganefnd Sjómannafélags Íslands senda frá sér eftirfarandi, til að svara þessum spurningum.

Samningurinn milli SFS og SSÍ er án aðkomu Ríkissáttasemjara en deilan er enn á hans borði. Sjómannafélagi Íslands hefur ekki verið boðið að samningaborðinu af hálfu SFS eða gefist kostur á að hafa áhrif á samning þennan. Vitað er að Sjómannafélag Grindavíkur hefur hafnað þessum samningi enda lítið breyttur frá þeim sem felldur var á síðasta ári.

Að gefnu tilefni þá eru sjómenn ekki samningslausir. Þó svo samningstími sé liðinn þá gildir fyrri samningur áfram þar til nýr hefur verið gerður. Þess vegna á ekki að hræða sjómenn með því að þeir séu samningslausir. Er það heldur ekki rétt að bjóða félagsmönnum upp á nýjan samning nema að hann sé betri en sá gamli.

Samkvæmt skoðun Sjómannafélags Íslands er helsti munurinn á þeim samningi sem felldur var í fyrra og þeim sem samþykktur var í vikunni í meginatriðum þessi:

Ákvæði um veikinda- og slysalaun, sem felur í sér verulega skerðingu á veikinda- og slysalaunarétti frá fyrri samningi, er óbreytt frá samningnum sem var felldur í fyrra, nema að núna á að gilda sama um þá sem eru ótímabundið ráðnir og eru ekki á róðrakerfi. Þetta er vissulega í áttina en gildir bara um hluta sjómanna og er engan veginn fullnægjandi, en í nýja samningnum er ekki að finna neina útfærslu á því hvernig farið skuli með og hefur þetta í för með sér mikla óvissu. Hér munu fyrirsjáanlega koma upp margvísleg ágreiningsmál og við vitum hvað gerist þegar menn ætla að skoða rétt sinn og sækja á útgerðina, þannig að þessi óvissa sem mun koma upp túlkar útgerðin sér í hag. Þetta kjarasamningsatriði sem SSÍ hefur samþykkt er í andstöðu við það sem kveðið er á um í sjómannalögum um rétt sjómanna til slysa- og veikindalauna og kveður á um lélegri rétt en segir í lögunum. Að mati Sjómannafélags Íslands er fráleitt að setja inn ákvæði í kjarasamning sem vitað er að er í andstöðu við sjómannalögin, en engin vissa um að aðrir sjómenn samþykki breytingu á sjómannalögum varðandi slysa og veikindarétt.

Til bóta er að samningstími sé ekki 10 ár en möguleiki til uppsagnar sjómannsmegin er mjög þröngur, 50% kosningaþátttaka og aukinn meirihluti (2/3) til að segja upp samningi. Nefna má hér að í kosningu um síðasta samning SSÍ sem var felldur þá náðist ekki 50% þátttaka í kosningu þó svo að samningurinn væri mjög umdeildur. Engin slík skilyrði hjá útgerðinni, bara venjulegur meirihluti stjórnar SFS. Útgerðirnar hafa auk þess einar sérstaka heimild til uppsagnar samningsins, til dæmis mega veiðigjöld ekki hækka svo einhverju nemi og hlutverk Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna skal ekki breytast. Sjómenn hafa engin samskonar einhliða uppagnarákvæði.

Áfram er kveðið á um lækkun á skiptaprósentu, sbr. umfjöllun um þetta um síðasta samning, en til að reyna að fela þetta er nú talað um heimild til að „breyta“ skiptaprósentu, en þetta er auðvitað sami hluturinn. Þá er ekki lengur gerðardómur til að skera úr um ágreining hér heldur „nefnd“, þetta er líka sami hluturinn. Og sýnist þetta ákvæði í gr. 1.39 , sem mikil óánægja var með, vera óbreytt frá fyrra samningi sem felldur var. Ekki verður betur séð en að hér sé verið að semja frá sér samningsréttinn og rétt sjómanna um að semja um sín kjör.

 

Sjómenn njóta lakari lífeyrisréttar en allir aðrir launþegar. Í nýjum kjarasamningi er meðal annars hægt að óska eftir 3.5% auknu framlagi atvinnurekanda í lífeyrissjóð, en þá kemur á móti lækkun á skiptaprósentu, launin lækka á móti. Það er umhugsunarefni að samkvæmt þeim kjarasamningi sem SSÍ og SFS hafa nýverið skrifað undir þurfa sjómenn á fiskiskipum einir launþega að sæta því að með því að fá inn í samning ákvæði um lífeyrisréttindi, til samræmis við aðra launþega, þurfi þeir á móti að taka á sig launaskerðingu.

Samið er um desemberuppbót sem kemur þó ekki til framkvæmda með fyrstu greiðslu fyrr en eftir tæp 5 ár, í desember 2028, með ýmsum takmörkunum sem menn ættu að kynna sér frekar.

 

Kveðið á um eingreiðslu 400 þúsund verði samningurinn samþykktur. Það skilar um 230 þúsund í vasann eftir skatt. Sú fjárhæð skerðist náist ekki 160 lögskráningardagar 2023.

Sérstaka athygli vekur óvenju stuttur tími fyrir félagsmenn SSÍ til að kynna sér samninginn og kjósa um hann. Meðan meirihluti félagsmanna eru á sjó fá þeir aðeins 5 daga til að kynna sér samninginn og geta því tæplega á þeim tíma kynnt sér vel samninginn, rætt við sín félög og borið saman bækur við aðra sjómenn. Að sama skapi hafa sjómenn aðeins örfáa daga til að kjósa rafrænt um samninginn og er ekki mögulegt að skipta um skoðun eins og venja er þó með atkvæðagreiðslu vegna kjarasamnings. Venjan hefur verið að sjómenn fái starfs síns vegna mun rýmri tíma til að kynna sér efni kjarasamnings og til að kjósa um hann.

Að lokum - það hlýtur að teljast óboðlegt sjómönnum að eigi þeir að fá í gegn eðlilegar og sanngjarnar kjarabætur þá þurfi þeir á móti að sæta lækkun á skiptaprósentu, lækkun á launum. Slík eftirgjöf er ekki ásættanleg.

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu