Ályktanir aðalfundar Sjómannafélags Íslands sem haldin var 28. desember 2017
Aðalfundur Sjómannafélags Íslands skorar á Sjávarútvegsráðherra að hrinda af stað átaki til þess að fylgjast með vigtun á sjávarafla og bæta regluverk sem um vigtunina gildir. Gera þarf aðgengilegra fyrir sjómenn og samtök þeirra að fylgjast með vigtun sjávarafurða af þeirri einföldu ástæðu að launkjör sjómanna eru byggð á hlutaskiptakerfi.
Aðalfundur Sjómannafélags Íslands skorar á Alþingi að hafna öllum hugmyndum um hækkun lífeyrisaldurs. Staðreyndin er sú að sjómenn ná nú þegar sjaldnast að klára sinn starfsaldur á sjó, annað hvort eru þeir tilneyddir að hætta til sjós vegna líkhamslegs slits, vegna álags og erfiði sjómennskunnar, sem hún er. Eða þeim er sagt upp í starfi til að víkja fyrir sér yngri mönnum og reynist þeim oftast erfitt að finna sér starf í landi við hæfi.
Aðalfundur Sjómannafélags Íslands skorar á stjórnvöld að endurskoða lög nr. 13 27. mars 1998 um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna með það að sjónarmiði að hafa meira eftirlit með verðmyndun á uppsjávarafla og auðvelda stofnunninni að úrskurða um fiskverð en dæmi er um tuga prósenta verðmun á milli útgerða sem er afleiðing þess að verð á uppsjávarafla er nánast einhliða ákvörðun útgerða.