Fundargerð kjörstjórnar

Mánudaginn 19. nóvember 2018, klukkan 11.30, kom kjörstjórn Sjómannafélags Íslands saman, á skrifstofu félagsins Skipholti 50d, Reykjavík. Mættir voru Jónas Þór Jónasson hrl., formaður, Guðmundur Hallvarðsson, og Elliði Norðdahl Ólafsson.

 

Í auglýsingu í Morgunblaðinu 3. nóvember 2018 og á heimasíðu félagsins var til samræmis við lög félagsins auglýstur framboðsfrestur, „vegna kjörs stjórnar, stjórnar matsveinadeildar og trúnaðarmannaráðs“. Meðfylgjandi er auglýsing sú sem birtist í Morgunblaðinu.

 

Á fundinum lá fyrir listi stjórnar félagsins til stjórnar (A-listi), stjórnar matsveinadeildar og trúnaðarmannaráðs. Þá lagði Heiðveig María Einarsdóttir fram mótframboð B-lista, til stjórnar í félaginu, ásamt skrá meðmælenda. Loks voru lögð fram nöfn fimm þar tilgreindra félagsmanna, til framboðs í trúnaðarmannaráði félagsins. Frestur til að skila inn framboðum og meðmælendalistum var til klukkan 12.00 í dag, og bárust framangreindir listar og gögn fyrir þann tíma.

 

Í framhaldinu fundaði kjörstjórn og fór yfir framboðslista og fylgigögn þeirra. Ekki náðist að ljúka skoðun og yfirferð gagna og var fundi kjörstjórnar frestað til næsta dags, 20. nóvember, klukkan 14.00.

 

Fleira ekki gert, fundi slitið

Þriðjudaginn 20. nóvember 2018, klukkan 14.00, kom kjörstjórn Sjómannafélags Íslands saman á ný, á skrifstofu félagsins Skipholti 50d, Reykjavík. Mættir voru Jónas Þór Jónasson hrl., formaður, Guðmundur Hallvarðsson, og Elliði Norðdahl Ólafsson.

 

Var fram haldið fundi kjörstjórnar sem frestað hafði verið deginum áður. Kjörstjórn lauk við könnun á framkomnum listum og kannaði kjörgengi þeirra sem boðið höfðu sig fram til starfa í stjórn félagsins, stjórn matsveinafélagsins og til setu í trúnaðarmannaráði.

 

Skoðun á listum stjórnar félagsins, A-lista, til setu í stjórn, stjórn matsveinafélags og trúnaðarmannaráðs leiddi í ljós að þeir félagsmenn sem þar eru tilgreindir uppfylltu allir skilyrði félagsins um kjörgengi og telst listi A-lista því lögmætur vera.

 

Við skoðun lista B-listar til stjórnar í félaginu og skrá meðmælenda kom eftirfarandi í ljós:

 

-Einungis var lagður fram listi til stjórnar og varastjórnar í félaginu, ásamt skrá yfir meðmælendur. Ekki bárust listar til stjórnar matsveinadeildar eða trúnaðarmannaráðs. Samkvæmt lögum félagsins, sbr. auglýsing á framboðsfresti í Morgunblaðinu og á vefsíðu félagsins, fara kosningar fram til framangreindra 2ja stjórna og trúnaðarmannaráðs á sama tíma og skal mótframboð til stjórnar í félaginu jafnframt leggja fram framboð til stjórnar matsveinadeildar, sbr. 3. gr. laga félagsins, og trúnaðarmannaráðs, sbr. 16. gr. laga félagsins. Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. laga félagsins skal stjórn félagsins, varastjórn og stjórn matsveinadeildar eiga sæti í trúnaðarmannaráði félagsins. Í c-lið 5. mgr. 16. gr. laga félagsins kemur fram að hafi aðeins einn framboðslisti borist til stjórnar, trúnaðarmannaráðs og matsveinadeildar séu þeir menn sem þar eru tilnefndir sjálfkjörnir í stjórn. Berist tveir eða fleiri framboðslistar skulu þeir merktir bókstöfunum A, B, C o.s.frv. Af framangreindu er ljóst að lög félagsins áskilja að mótframboð í félaginu skuli samanstanda af lista til stjórnar, trúnaðarmannaráðs og matsveinadeildar. Listi B-lista var eins og að framan greinir einvörðungu mótframboð til stjórnar, en engir listar bárust til stjórnar matsveinadeildar eða trúnaðarmannaráðs.

 

-Frambjóðandi B-lista til formanns stjórnar félagsins er hvorki félagsmaður í félaginu né uppfyllir hann skilyrði c-liðar 5. mgr. 16. gr. laga félagsins um kjörgengi, þar sem hann hafði ekki greitt í félagið í a.m.k. 3 ár.

 

-Samkvæmt c-lið 5. mgr. 16. gr. laga félagsins, þurfa þeir félagsmenn sem leggja fram annan framboðslista við stjórnarkjör að leggja fram meðmælalista um leið og framboðslisti er afhentur og skal meðmælalistinn afhentur kjörstjórn um leið og framboðslistinn er afhentur. Með lista B-framboðs til stjórnar í félaginu fylgdu listar með meðmælum 111 manna. Við skoðun á listunum kom í ljós að þrír þeirra voru ekki félagsmenn í félaginu og frambjóðandi B-lista til formanns í stjórn félagsins. Auk þess voru allir frambjóðendur til stjórnar og varastjórnar í félaginu, alls 10, meðal meðmælenda. Frambjóðendur til stjórnar og varastjórnar í félaginu geta ekki jafnframt verið meðmælendur með eigin framboði. Aðrir 99 meðmælendur með B-lista voru gildir félagsmenn. Af því leiðir tilskildum fjölda meðmælanda með framboði B-lista var ekki náð, en samkvæmt c-lið 5. mgr. 16. gr. laga félagsins þurfa að fylgja að lágmarki 100 meðmæli með mótframboði til stjórnar í félaginu.

 

Af öllum framangreindum ástæðum leiðir, að framboð B-lista til stjórnar í félaginu uppfyllir ekki skilyrði laga félagsins til mótframboðs og telst listinn því ekki vera lögmætur. Þar sem aðeins einn lögmætur listi, A-listi stjórnar félagsins, hefur borist til stjórnar, trúnaðarmannaráðs og matsveinadeildar, sbr. c-liður 5. mgr. 16. gr. laga félagsins, úrskurðar kjörstjórn að þeir menn sem þar eru tilnefndir teljast vera sjálfkjörnir í stjórn félagsins, stjórn matsveinadeildar og trúnaðarmannaráð, til samræmis við önnur ákvæði laga félagsins.

 

Auk framangreindra buðu 5 félagsmenn sig fram til setu í trúnaðarmannaráði félagsins. Þeir uppfylla ekki skilyrði 16. gr. laga félagsins  og teljast þeir því ekki tækir til setu í ráðinu.

 

Fleira ekki gert, fundi slitið

Hunang vefstofa Merki Hunang vefstofu