Áskorun á ráðherra
Stjórn Sjómannafélags Íslands harmar illa ígrundaða ákvörðun matvælaráðherra, að stöðva tímabundið veiðar á langreyðum og skorar stjórnin á ráðherrann að draga ákvörðunina tafarlaust til baka. Um sé að ræða fyrirvaralausa ákvörðun þar sem bersýnilega var ekki farið eftir málsmeðferðarreglum stjórnsýsluréttar og því sé ákvörðunin ólögmæt. Ákvörðun ráðherra komi sér verulega illa gagnvart miklum fjölda fólks sem að veiðunum koma á einn eða annan hátt. Í ljósi þessa og þar sem hvalveiðar hafa verið leyfðar um langt árabil standa engin málefnaleg rök fyrir þessari skyndilegu og verulega íþyngjandi ákvörðun ráðherrans, en með henni er ráðherrann að óþörfu að baka íslenska ríkinu skaðabótaábyrgð, vegna fjárhagslegs tjóns sem af hinni ólögmætu ákvörðun leiðir, en ljóst er að um ræðir verulegar fjárhæðir, sem íslenskir skattborgarar þurfa á endanum að bera.
Stjórn Sjómannafélags Íslands