Sjómannafélag Íslands skrifar undir nýjan kjarasamning
Sjómannafélag Íslands og Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) skrifuðu í dag undir kjarasamning, um kaup og kjör sjómanna á fiskiskipum. Samningaviðræður höfðu staðið yfir um nokkurt skeið og leit ekki út fyrir að samningar myndu takast, þrátt fyrir að Félag skipstjórnarmanna og Sjómannasamband Íslands hefðu snemma fallist á samningstilboð SFS, en VM Félag vélstjóra og málmtæknimanna, Sjómanna- og vélstjórafélag Grindavíkur og Sjómannafélag Íslands höfðu ekki verið tilbúin að semja við SFS. Í síðustu viku ákváðu VM og SVG að taka boði SFS og skrifuðu undir kjarasamning við SFS, ásamt Félagi skipstjórnarmanna og Sjómannasambandi Íslands, f.h. aðildarfélaga sinna. Við svo búið og breytta samningsstöðu félagsins ákvað samninganefnd þess að rétt væri að skrifa undir samninginn, sem gert var fyrr í dag, og gefa félagsmönnum færi á að kynna sér og kjósa um samninginn, sem öll önnur stéttarfélög sjómanna höfðu þá þegar samþykkt. Kjarasamningurinn, atkvæðagreiðslan og fyrirkomulag hennar verða svo kynnt á heimasíðu félagsins á næstu dögum.